Krabbameinsrannsóknir á Íslandi – mikilvægi rannsókna í sögulegu ljósi og framtíðarsýn


Húsfyllir var á málþingi Samtaka um krabbameinsrannsóknir á Íslandi miðvikudaginn 8. janúar 2014 sem var haldið í húsi Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð.


Helga M. Ögmundsdóttir
, prófessor við Læknadeild HÍ, fór yfir sögu krabbameinsrannsókna á Íslandi. Margt áhugavert kom fram í erindi Helgu sem m.a. gerði úttekt á birtingum vísindagreina um krabbameinsrannsóknir á Íslandi frá upphafi. Hún vék að því hvernig stofnun sérstakra rannsóknahópa í krabbameinsfræðum um 1990 leiddi til gríðarlegrar aukningar í vísindalegri virkni og birtingum greina. Af þessu leiddi m.a. uppgötvun á mikilvægi BRCA2 í áhættu á brjóstakrabbameini. Auk þess vék Helga að því að áhugavert er að skoða hversu öflugar rannsóknir á krabbameinum hjá börnum hafa verið  á Íslandi síðustu áratugi.

 

Þórunn Rafnar, deildarstjóri krabbameinsrannsókna hjá ÍE, ræddi um grunnrannsóknir í krabbameinsfræðum og mikilvægi þeirra. Þórunn fjallaði um nokkrar nýlegar rannsóknir á krabbameinum frá Íslenskri erfðagreiningu og fjallaði um möguleika á samstarfi við fyrirtækið með íslenskum vísindamönnum sem hefðu áhuga á að skilgreina sameindafræðilegar afleiðingar erfðabreytileika sem tengjast krabbameinum í íslensku þjóðinni. 

 

Magnús Karl Magnússon, deildarforseti Læknadeildar HÍ, ræddi um nýtingu grunnrannsókna til betri forvarna og meðferða. Magnús gerði að umtalsefni hvernig grunnrannsóknir í erfðafræði hafa breytt skilningi okkar og áhættumati á krabbameinum eins og brjóstakrabbameini. Hann ræddi um þau tækifæri sem felast í að tengja krabbameinsrannsóknir við erfðarannsóknir á Íslandi.  Hann vakti einnig athygli á því hvernig Íslendingar ættu að takast á við þá einstöku stöðu sem komin er upp varðandi þær víðtæku erfðaupplýsingar sem við eigum um þjóðina og hvaða ábyrgð það felur í sér að nota þær í forvarnarskyni þannig að það gagnist einstaklingum sem eru í sérstakri áhættu að fá arfgeng krabbamein, án þess að ganga á rétt sjúklinga um persónuvernd.

 

Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, kynnti hugmyndir um stofnun rannsóknasjóðs til krabbameinsrannsókna. Krabbameinsfélagið og fleiri aðilar úr ólíkum áttum, m.a. úr atvinnulífinu, hafa unnið að hugmyndum um stofnun slíks sjóðs.

 

Áhugaverðar umræður sköpuðust meðal fundargesta og greinilegt að mörg málefni brenna á félagsmönnum. Meðal þess voru umræður um tilhögun og uppsetningu rannsóknasjóðs til krabbameinsrannsókna og umræður um nýtingu erfðaupplýsinga í forvarnaskyni. Mikil gerjun á sér stað í krabbameinsrannsóknum og skiptar skoðanir eru hjá sérfræðingum um nálgun þess hvernig nýta skal erfðaupplýsingar í forvarnarskyni. Gagnagrunnur ÍE varð umfjöllunarefni fundargesta þar sem rökrætt var hvort og þá hvernig nýta skuli upplýsingar sem þar eru varðveittar. Einnig var bent á þá erfðaráðgjöf sem veitt er á LSH og þörf á að efla það góða starf enn frekar. Ljóst er að brýnt er að halda þessari umræðu áfram.